Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Ný stjórn og samgöngustefna Hlíða samþykkt á aðalfundir Íbúasamtaka 3. hverfis

Aðalfundur Íbúasamtaka 3. hverfis – Hlíðar, Holt og Norðurmýri var haldinn í Háteigsskóla fimmtudagskvöldið 29. október. Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf; skýrsla stjórnar kynnt, reikningar samtakanna lagðir fram til samþykktar og stjórnarkjör. Þar bar helst til tíðinda að Steinnunn Þórhallsdóttir hefur verið kjörin nýr formaður Íbúasamtaka 3. hverfis og koma inn í stjórn með henni 3 nýjir stjórnarmenn. Hægt er að sjá hér á síðunni hverjir sitja í stjórn næsta starfsár samtakanna.

Að afloknum hefðbundum aðalfundarstörfum, kynnti Steinunn Þórhallsdóttir, nýkjörin formaður samtakanna, niðurstöður samráðshóp um betra Miklatún sem Íbúasamtökin tóku þátt í. Þetta samráð náði hámarki með mjög fjölmennum hugmyndafundi á Kjarvalsstöðum sl. vor. Það er einkar ánægjulegt að sjá þá hugarfarsbreytingu sem hefur orðið með að leita til íbúa varðandi samráð og samstarf um að bæta lífsgæði í borginni okkar.

Borin var upp tillaga um samgöngustefnu Hlíða sem mótuð var á Samgönguþingi Hlíða þann 21. október sl. og var hún samþykkt samhljóða. Samgöngustefnan er aðgengileg á vef Íbúasamtaka 3. hverfis og eru íbúar hvattir til að kynna sér hana og ekki síður að taka tillit til hennar í okkar daglega lífi. Næstu skref er að leggja samgöngustefnu Hliða fyrir hverfisráð og í framhaldi að hvetja stofnanir og fyrirtæki í hverfinu að gera slíkt hið sama.

Lýðræðisverkefni borgarstjórnar var kynnt og samþykkt að leggja til grundvallar nokkar hugmyndir sem komu upp á fundinum, auk þeirra 45 atriða sem eru á aðgerðalista íbúasamtakanna frá 2007.

Hlekkir á öll gögn sem voru lögð fram á fundinum eru á vefsíðu Íbúasamtaka 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri.

 


Íbúar í Hlíðum boða til aðgerða á Miklubraut miðvikudaginn 21.október kl. 16:30

Íbúar í Hlíðum vilja draga andann rólegir í sínu eigin hverfi og hlífa börnunum við mengunaráhrifum mikillar umferðar á Miklubraut.  Íbúasamtök 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri boða til friðsamra aðgerða á sjálfri Miklubraut til að vekja fólk til vitundar um skert lífsgæði Hlíðabúa vegna hávaða- og svifryksmengunar.

Miðvikudaginn 21. október kl. 17.00 boðar Hverfisráð Hlíða til Samgönguþings á Kjarvalsstöðum.  Þing þetta er opið öllum íbúum Hlíða sem fyrst hverfa ætlar að móta samgöngustefnu fyrir hverfið.
Íbúasamtök 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri fagna þessu framtaki og hafa skipulagt aðgerðir í tilefni af þessu. Íbúar ætla að safnast saman kl. 16.30 beggja vegna Miklubrautar við gangbrautina við Reykjahlíð á móts við Miklatún, þar sem dreift verður rykgrímum.  Kl. 16:45 munum þeir ganga nokkrum sinnum í rólegheitum yfir Miklubrautina með stóran borða sem meðal annars á stendur:  Sýndu tillitsemi – Hér býr fólk – Minni hávaða – Betra loft.   Borði þessi var notaður í sams konar aðgerðum fyrir 12 árum af íbúum hér í hverfinu og var færður íbúasamtökunum fyrir ári síðan.  Áhyggjur íbúa þá og nú eru hinar sömu, enda eykst umferð á Miklubraut ár frá ári og svifryksmengun fer ítrekað yfir heilsufarsmörk í Hlíðum.

Stjórn Íbúasamtaka 3. hverfis býður íbúum Hlíða á öllum aldri, fjölskyldum og einstaklingum að taka þátt í þessari friðsamlegu athöfn.  Við viljum vekja okkur sjálf og aðra til vitundar um það að það er hægt hafa mikil áhrif á loftgæði borgarinnar með t.d. að ganga og hjóla meira, aka hægar og hætta notkun nagladekkja. Stjórn samtakanna  krefst einnig svara frá borgaryfirvöldum hvaða úrræði þau hafi til að tryggja það að að mengunin við Miklubraut fari ekki oftar yfir heilsufarsmörk á árinu enda hefur fjöldi skipta nú þegar fyllt leyfilegan kvóta samkvæmt reglugerð. Íbúasamtökin hvetja fólk til að mæta með heyrnarhlífar, hjálma og mótmælaspjöld. Fulltrúar frá íbúasamtökum munu stjórna aðgerðum, dreifa rykgrímum til gangandi fólks og bílstjóra og kalla til fjölmiðla.

Stöndum, saman, stöðvum stórfljót bíla á Miklubraut skamma stund – og drögum andann djúpt í Hlíðum.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vef Íbúasamtaka 3. hverfis og má m.a. sjá blaðaúrklippur frá aðgerðunum 1997. 


Samgönguþing Hlíða 21. október á Kjarvalsstöðum

Samgönguþing Hlíða á Kjarvalsstöðum miðvikudaginn 21. október kl. 17 - 19

Hlíðahverfi tekur af skarið í Reykjavík með því að vera fyrst hverfa til að samþykkja samgöngustefnu fyrir hverfið. Íbúar í Hlíðum, Holtum og Norðurmýri eru boðaðir til Samgönguþings Hlíða 2009 þar sem mynduð verður samgöngustefna fyrir 3. hverfi Reykjavíkur. Þingið er á vegum Hverfisráðs Hlíða í samvinnu við Íbúasamtök 3. hverfis.

Hugmyndin að baki samgöngustefnunni er að stuðla að minni kostnaði og bættum umhverfisáhrifum vegna ferða íbúa, hvort sem það er vegna ferða innan hverfis eða út fyrir það.

Dagskrá:

   1. Kynning á Hverfisráði Hlíða
   2. Kynning frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar
   3. Kynning frá Íbúasamtökum 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri
   4. Hópastarf
   5. Niðurstöður

Gert er ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi og reyndist svo vel þegar íbúafundur var um nýtt skipulag á Miklatúni. Þá mættu yfir 100 íbúar á Kjarvalstaði til að leggja á ráðin um framtíðarskipulag garðsins. Nú er tækifæri til að endurtaka leikinn og fjölmenna til að móta fyrst hverfa í Reykjavík samgöngustefnu fyrir heilt hverfi og taka þátt í líflegri stefnumótum í samvinnu við nágranna og aðra íbúa í Hlíðum, Holtum og Norðurmýri.

Nánari upplýsingar má fá á vef Íbúasamtaka 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband