Leita í fréttum mbl.is

Áskorun til borgaryfirvalda - Útisundlaug við Sundhöllina

Líklega velja margir að búa miðsvæðis í Reykjavík, til að hafa möguleika á því að ganga eða hjóla allra sinna ferða. Það er skynsamleg og góð hreyfing sem mengar ekki andrúmsloftið. Margir vilja geta gengið í sundlaugar borgarinnar, til að fá enn meiri hreyfingu og frískt loft allan ársins hring. Sem betur fer búa flestir borgarbúar við þau lífsgæði að stutt er í næstu útisundlaug.

En nú ber svo við að íbúar sem búa í Miðborginni, Holtunum, Norðurmýrinni og Hlíðunum og vilja fá sér sundsprett undir berum himni er gert erfitt um vik, þar sem engin útisundlaug er í þessum hverfum. Það er að sjálfsögðu hægt að ganga eða hjóla í bæði Vesturbæjarsundlaug eða Laugardalslaug, en þegar heilu fjölskyldurnar ætla í sundferð, verður bíllinn oftast fyrir valinu. Á þessu má ráða bót með því að byggja útisundlaug við hverfislaugina, Sundhöll Reykjavíkur. Hugmyndir um að byggja útisundlaug við þá merkilegu innilaug hafa verið sveimandi yfir höfðum okkar í 65 ár og borgaryfirvöld hafa ævinlega verið jákvæð gagnvart þeirri hugmynd. Enn er þó hvergi að finna samþykkt um að hefjast handa við verkið.

Kostir þess að byggja útisundlaug við Sundhöllina við Barónsstíg eru fjölmargir. Sundkennsla barna yrði efld, auk þess sem eldri borgarar gætu notið útiveru í auknum mæli. Fjölskyldufólk í hverfinu þyrfti ekki að fara um langan veg til að sækja heim sundlaug og meira svigrúm yrði fyrir þá sem æfa sundíþróttina markvisst.

Nú hafa bæði íbúasamtök 3. hverfis og Miðborgar ályktað um hversu brýnt er að fá útisundlaug á þennan reit. Við hvetjum því stjórnendur borgarinnar til að staðfesta að autt svæði sunnan við Sundhöll Reykjavíkur verði nýtt til að byggja útisundlaug. Jafnframt vonumst við til að borgarfulltrúar hafi í sér drift og döngun til að veita fjár til þessa mannvirkis nú þegar unnið er að fjárhagsáætlun borgarinnar.

Á vef Íbúasamtaka 3. hverfis - www.hlidar.com - er nú í gangi undirskriftarsöfnun með áskorun til borgaryfirvalda um að tryggja svæðið sunnan sundhallar og hefjast handa við undirbúning að því að útisundlaug rísi við Sundhöllina.

Eva María Jónsdóttir, formaður Íbúasamtaka miðborgarinnar
Hilmar Sigurðsson, formaður Íbúasamtaka 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband